Fyrirtækin Poppins & Partners ehf. og Evris ehf. hafa tekið höndum saman með það að leiðarljósi að efla stuðning við nýsköpun á Íslandi. Með markvissu samstarfi sín á milli vilja Poppins & Partners og Evris hámarka samlegðaráhrif þeirrar þjónustu, sem fyrirtækin tvö veita, einkum sprotafyrirtækjum og einstaklingum í nýsköpun. Þjónustan felst m.a. í að undirbúa styrkumsóknir innan lands og utan, sækja annars konar fjármögnun og almennri ráðgjöf.

Bæði fyrirtækin byggja brýr með sprotafyrirtækjum og frumkvöðlum. Poppins & Partners veita sérþekkingu á íslensku fjármögnunarumhverfi, hvort sem um ræðir styrki eða áhættufjármagn auk þess að koma að hinum ýmsum hliðum fyrirtækja í vexti, s.s. stefnumótun, verkefnastjórnun og áætlanagerð. Evris hefur aftur á móti sérhæft sig í að veita aðstoð í að sækja styrki í erlenda sjóði, opna erlenda markaði og miðla alþjóðlegri þekkingu og aðstoð til fyrirtækja og brúa þannig leið þeirra yfir á erlenda markaði.

Á myndinni má sjá Þórunni Jónsdóttur frá Poppins & Partners og Önnu Margrét Guðjónsdóttur frá Evris þegar samstarfssamningurinn var undirritaður.