Fimm íslenskum fyrirtækjum hefur verið boðið að kynna vörur sínar fyrir dómnefnd ESB um sk. Accelerator styrki. Öll nutu þau aðstoðar okkar hjá Evris / Inspiralia við að undirbúa umsóknir sínar.

Alls bárust 2.083 umsóknir um Accelerator styrki í maí sl. þar sem sérstaklega var kallað eftir hugmyndum um grænar lausnir. Niðurstaða valnefnda var að bjóða 147 fyrirtækjum að kynna vörur sínar og viðskiptaáætlanir fyrir sérstökum dómnefndum nú í byrjun júlí en það er síðan í þeirra höndum að ákveða hvaða 60 – 65 fyrirtækjum verða veittir styrkir að upphæð 1.0 – 2.5 milljónir evra (155 – 388 m ísk). Af þessum 147 fyrirtækjum eru fimm íslensk fyrirtæki, þ.e. Asco Harvester, CoolWool, D-Tech, Greenvolt og ORF líftækni. Við hjá Evris / Inspiralia óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og sendum þeim baráttukveðjur. Niðurstöður um það hvaða fyrirtæki hljóta styrki munu væntanlega liggja fyrir í lok þessa mánaðar og verða kynntar í fréttabréfi Evris í byrjun september.