Alþjóðlega fyrirtækið STRAX, sem stofnað var og er stjórnað af Íslendingum, fékk nýlega styrk frá breskum stjórnvöldum með aðstoð Evris / Inspiralia. STRAX hefur sérhæft sig í dreifingu á aukahlutum fyrir farsíma síðustu 20 ár en til að auka framlegðina hefur STRAX verið að þróa eigin vörur og vörumerki síðustu 8-10 árin. Eitt af nýju vörumerkjunum í vinnslu heitir Dóttir og er samstarf með Crossfiturunum Katrínu Tönju og Annie Mist. Varan, sem enn er í þróun, er ný tegund af heyrnatólum sem leyfir notendum að hlusta á tónlist án þess að þurfa hafa símann meðferðis. Nýlega fékk Dóttir styrk frá Innovate UK upp á 50 milljónir ISK til að þróa vöruna. Meiri hlutinn af því fjármagni fer í vöruþróun og sonic branding. Styrkurinn var veittur til STRAX og SoundOut en hið síðarnefnda er leiðandi á heimsvísu í neytendaprófunum fyrir sonic branding. Stefnan er að hefja sölu á vörunni snemma á næsta ári.